Ál eða fiskur?

NÝLEGA hef ég verið að lesa bók um stjórnmálasögu Egyptalands: Egypt – politics and Society 1945–1984. Hún kom út hálfum öðrum áratug eftir að Aswan-virkjunin var fullgerð. Þar er fjallað um ávinning og fórnarkostnað af þeirri stóru framkvæmd. Egyptar fengu frá henni rafmagn sem full þörf var fyrir, en það fylgdi böggull skammrifi. Framburður Nílar sest nú fyrir á botni uppistöðulónsins sem frjóvgar nú ekki lengur akurlendi Nílardalsins. Rafmagnið var m.a. notað til að framleiða tilbúinn áburð en hann kemur ekki að sama gagni og leðjan sem Níl flutti með sér. Þó var það annað sem vakti meira athygli mína. Fyrirfram óttuðust Egyptar þau áhrif sem framkvæmdin kynni að hafa á lífríki Miðjarðarhafs, á fiskgengd fyrir ströndum landsins, en jafnframt bjuggust þeir við að fiskur myndi dafna í uppistöðulóninu sjálfu. Heildaruppgjör er ekki að finna í bókinni, enda fjallar hún um stjórnmál en ekki náttúrufar. Þó má skilja að reynslan af virkjuninni sé ekki sem best. Það sem máli skiptir er að ekki síðar en árið 1970 var mönnum fullkunnugt um samband milli framburðar stórfljóta og lífríkis sjávar.

Eins og flestir vita hafa Kínverjar verið að stífla Langá, en það er fljótið mikla sem á kínversku heitir Chang-jiang. Jang og Tse eru einungis tvær af nokkrum stærstu þverám Langár, en útlendingar tóku upp heitið Jangtse fyrir stórfljótið í heild sinni. Taívanbúar hafa um skeið fylgst með áhrifum virkjunarframkvæmda í Langá á lífríki Suður-Kínahafs. Þeir biðu í startholunum því að eins og Egyptum var þeim kunnugt um sambandið milli framburðar árinnar og lífríkis hafsins. Þótt skammt sé um liðið og rafmagnið enn ekki farið að streyma um háspennulínur er útlitið á marga lund talið ógnvænlegt.

En lítum okkur nær. Selvogsbanki var fyrir okkur Íslendinga mikil gullkista, auðugustu fiskimið landsins ásamt Halanum vestra. Búrfellsvirkjun komst í gagnið um leið og álverið í Straumsvík 1970. Síðan bættust við margar virkjanir í Þjórsá-Tungná. Í framhaldi af þessu hefir afkomu þorskseiða og nýliðun hrakað á Selvogsbanka og fiskafli dregist saman. Það skyldi nú vera að þarna sé ekki orsakasamhengi á milli sem ástæða væri til að skoða nánar áður en fjölgað verði aurgildrunum í Þjórsá.

Jökla heitin, öðru nafni Jökulsá á Dal, var allt til þess botnlokurnar voru settar í Kárahnjúkastíflu sl. haust aurugasta jökulfljót Íslands og á marga lund um leið það gjöfulasta um aldir. Hún vökvaði engjar á Úthéraði og bætti steinefnum í hafið úti fyrir og þau efni streyma áfram suður með Austfjörðum. Þessi áhrif voru eðlilega nefnd í sambandi við umdeildustu framkvæmd Íslandssögunnar. Sérfræðingar og leikmenn vöruðu við og bentu á hugsanlegt samhengi á milli framburðar Jöklu og gjöfulla fiskimiða úti fyrir Austfjörðum og viðkomu staðbundinna stofna. En á raddir þeirra var ekki hlustað frekar en af ráðandi virkjunarsinnum í Egyptalandi og Kína og þeim fjármálastofnunum sem borga brúsann.

Hér kann að vera um beina efnahagslega hagsmuni að ræða en ekki bara náttúrudýrkun, tilfinningasemi og rómantík. Viðurkennt var jafnvel af stóriðjumönnum að "fórnarkostnaðurinn" af Kárahnjúkavirkjun væri mikill en til réttlætingar töldu þeir fram umdeilda ávinninga. En það skyldi nú ekki vera að "fórnin" hafi farið fyrir ekkert og jafnvel minna en það. Vera má að þessi þáttur, áhrifin á lífríki hafsins, vegi þyngra á metaskálunum en allt hitt til samans, ál annarsvegar – fiskur hinsvegar, og var þó af nógu að taka fyrir. Hvað sjálfan mig varðar horfi eg kvíðafullur fram á veg varðandi fiskgengd og veiðar fyrir austan.

Framburður stórfljóta leggur mannkyni ekki aðeins til frjósömustu akuryrkjulönd jarðar heldur einnig næringu fyrir höfin sem síðan leggur grunn að lífríki sjávar. Jafnframt segja okkur vísir menn að hann stilli af sýrustig hafsins og eigi þátt í bindingu gróðurhúsalofts meira en nokkur gerði sér grein fyrir þar til nýlega.

Í alþjóðasamþykktum lesum við að náttúran skuli njóta vafans. Hérlendis hefir þessu verið snúið við: Verum bjartsýn, teflum á tæpasta vað. Virkjum sem hraðast og spyrjum svo um afleiðingarnar.

Höfundur er jógakennari.


Athugasemdir

1 Smámynd: Pétur Þorleifsson

Hér og hér var þetta líka til umfjöllunar.

Pétur Þorleifsson , 5.4.2007 kl. 17:49

Bæta við athugasemd

Nauðsynlegt er að skrá sig inn til að setja inn athugasemd.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband